29. júlí 2017

16. AUKASÍÐAN Í TINNA OG PIKKARÓNUNUM

Frá 16. september árið 1975 og fram til 13. apríl 1976 birtist nýjasta saga Hergé, Tinni og Pikkarónarnir (Tintin et les Picaros), í fransk/belgíska myndasögutímaritinu Le Journal de Tintin.
Hergé hafði verið í tíu ár með Tinna og Pikkarónana og sífellt lengdist meir og meir sá vinnslutími sem fór í hverja sögu. Og á þeirri stundu vissi auðvitað enginn að þarna væri um að ræða síðustu heila Tinnasöguna sem kom út. Á meðan Hergé vann að sögunni fékk hún í upphafi heitið Tintin et les Bigotoudos, (bigotoudo er eins konar háðsyrði eða afbökun á spænska orðinu yfir "yfirvaraskegg") en Tintin et les Picaros varð síðan að endanlegri niðurstöðu. "Tinni og yfirvaraskeggin" hefði reyndar líka alveg getað orðið skemmtilegur kostur með vísan til þessara hæfilega hallærislegu, áunnu andlitslýta margra persóna bókarinnar.
Og vegna klaufalegra mistaka varð upphaf sögunnar ekki eins og upphaflega var ætlað. Hergé var búinn að teikna upphafsmyndina þar sem Tinni brunar um belgískar sveitir á mótorhjólinu sínu á leiðinni til Mylluseturs og þar sést hvar náttúran er sýnd í fullum blóma með laufguðum trjám, blómstrandi blómum og heiðskírum himni.
Því þurfti hins vegar að breyta eftir að fljótfærnisleg staðreyndavilla kom fram. Athugull aðstoðarmaður, sem starfaði við litun á sögunni, á Hergé Studios uppgötvaði og benti á að kjötkveðjuhátíðir í Suður Ameríku færu jafnan fram að vetrartíma (í febrúar) í Evrópu. Því þurfti að breyta þeirri árstíð sem fram kemur á fyrstu myndunum í sögunni. Afraksturinn er óneitanlega töluvert drungalegri.
Tinni og Pikkarónarnir markar töluverð tímamót í seríunni og ekki aðeins fyrir að vera síðasta bókin í flokknum heldur er hún um margt öðruvísi en þær bækur sem á undan höfðu komið. En þar verður auðvitað mest að taka tillit til hve langt var síðan næsta bók á undan (Flugrás 714 til Sydney) kom út. Þetta voru róttækir og mjög breyttir tímar, Hergé var farinn að eldast og hann var augljóslega að reyna aðlagast þeim tímum eftir best getu. Tinni var til dæmis farinn úr golfbuxunum sínum og kominn í gallabuxur og sjá má vísbendingar um að hann aðhyllist frjálslegum friðarsjónamiðum hippanna. Hann safnar reyndar ekki hári (þó reyndar megi alveg greina lengri barta á honum í bókinni) og heldur lítið fer fyrir frjálsum ástum hjá kappanum. En Tinni ferðast orðið um á mótorhjóli og á hjálmi hans má finna sígilt peace merki.
Ákveðnar áherslur eru áberandi í Tinna og Pikkarónunum en í sögunni fara til dæmis freistingar Kolbeins kafteins gagnvart áfengi hraðminnkandi. Vilhjálmur Vandráður á þar reyndar hlut að máli en það er, eins og gefur að skilja, auðvitað svolítið gegn vilja Kolbeins. Og í þessari sögu, sem er sú tuttugasta og þriðja í röðinni, kemur einnig í fyrsta sinn fram fullt nafn Kolbeins kafteins. Eftir allan þennan tíma kemur í ljós að kafteinnin heitir Kolbeinn Kaldan (Archibald Haddock á frummálinu).
Í kjölfar þess að sagan birtist í Le Journal de Tintin var hún búin undir prentun í bókaformi eins og venjan var með Tinna sögurnar. Og þá kom svo sannarlega svolítið babb í bátinn, því að í ljós kom að í sögunni væri einni blaðsíðu ofaukið. Í stað þess að bókin væri 62 blaðsíður, eins og venjan var, þá kom í ljós að blaðsíðurnar væru raunar orðnar 63. Það var því ljóst að stytta þurfti söguna um eina síðu eða hreinlega að sleppa úr einni blaðsíðu vegna þess að af tæknilegum ástæðum var ekki hægt að hafa bókina 63 síður. Og það varð raunin. Blaðsíðu 23 var einfaldlega kippt út úr sögunni og síða 24 því færð fram um eina blaðsíðu. Hér fyrir neðan má einmitt sjá þessa týndu blaðsíðu úr Tinna og Pikkarónunum.
Ekki hefur SVEPPAGREIFINN nennt að hafa fyrir því, með aðstoð Google translate og betri helmingsins, að snara þessari blaðsíðu beint yfir á íslensku og fylla upp í talblöðrurnar með íslenskum texta. En í grófum dráttum segir Spons við Alvares, að hann ætli að brjóta þá Tinna og Kolbeinn niður á sama hátt og glasið, sem hann kastar niður í gólfið, en það endurkastast þá á þann veg að það brýtur hluta af skegginu á brjóstmyndinni (af sjálfum Glerskeggi?) sem er á borðinu. Alvares hlær taugaveiklislega að óförum yfirmanns öryggislögreglunnar en Spons hugsar með sér að Alvares muni að öllum líkindum kjafta frá þessum klaufaskap hans og lítillækka hann þannig. Spons kallar Alvares því aftur til baka og minnir hann á að hafa sig hægan. Líklega tengist það því að Alvares eigi von á stöðuhækkun sem hann gæti þannig misst af.

Hér má einnig finna svolítið myndband á frönsku úr belgískum sjónvarpsþætti, frá 24. desember árið 1978, þar sem Hergé útskýrir ferlið með þessari frægu aukasíðu úr Tinna og Pikkarónunum

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!