1. júlí 2017

12. MYNDASÖGURÁP Í SVISSNESKUM BORGUM

SVEPPAGREIFINN er jafnan á ferðinni um Sviss á þessum árstíma og þá mestmegnis í kringum Biel og næsta nágrenni. Hann hefur á undanförnum árum þróað með sér þann skemmtilega ósið að reyna að verða sér úti um svolítið af myndasögum (helst ódýrum), þegar hann er á ferðum erlendis, og er því duglegur að þræða bæði flóa- og nytjamarkaði, sérverslanir með myndasögur og stórar bókaverslanir á þessu flakki sínu. Þetta hefur SVEPPAGREIFINN reyndar áður minnst á hér á síðunni.
Annars er úrvalið af myndasögum almennt nokkuð þokkalegt þar sem maður kíkir eftir því í Sviss. Í litlu blaðaturnunum eða sjoppunum sem fyrirfinnast við allar helstu verslunargötur og á lestarstöðvum má til dæmis alltaf finna Ástríks og Lukku Láka bækur en þar er hinsvegar erfiðara  að finna Tinna eða Sval og Val. Í stærstu stórmörkuðunum eins og Manor, COOP og MIGROS (sem eru eins konar Hagkaup þeirra Svisslendinga, nema auðvitað miklu stærri og fleiri) er úrvalið yfirleitt alveg prýðilegt. Þar má alltaf finna gott úrval af myndasögum, á þýsku, frönsku eða ítölsku - allt eftir því hvar maður er staddur í landinu hverju sinni.
Nú er SVEPPAGREIFINN enn á ný kominn heim úr slíku þriggja vikna fríi og verður að segjast eins og er að ansi var hann nú stórtækur i þetta skiptið. Og þá sérstaklega með það í huga að vera í fríi með fjölskyldunni. Heim kom hann með um 20 bækur og munaði þar mestu um skemmtilega myndasöguverslun, með notaðar bækur, í svissnesku borginni Lugano sem er nálægt ítölsku landamærunum.

En í stuttu máli sagt þá byrjuðu ósköpin á rólegu nótunum í Biel þar sem fjárfest var í tveimur bókum úr "öðruvísi" Sval og Val bókaflokknum. En þar er um að ræða sérstaka bókaflokka þar sem aðrir aðilar en hinir eiginlegu Sval og Val teiknarar fá að spreyta sig. Þessar sögur hafa enn ekki verið gefnar út á íslensku og tilheyra ekki hinum venjulegu bókum um Sval og Val en sýna þessar vinsælu bókmenntir á svolítið nýjan, framandi og skemmtilegan hátt. Önnur þessara bóka, Der Meister der schwarzen Hostien (2017), var á þýsku en hin, Le Tombeau des Champignac (2007) á frönsku. Svo virðist sem að ekki séu endilega um sömu bækurnar að ræða, í þessum bókaflokki, sem koma út í hvoru landi. Á þýsku tilheyra þessar bækur Spezial flokknum og eru orðnar 22 talsins. En reyndar eru inn í þeim bækur sem geyma líka elstu sögurnar. Þær virðast því ekki tilheyra venjulega Sval og Val bókaflokknum á þýsku. SVEPPAGREIFINN á þrjár bækur úr þessum Spezial flokki sem gefnar eru út af Carlsen Comics. Á frönsku heitir þessi flokkur hins vegar Série Le Spirou de ... og eru gefnar út af Dupuis en þar eru bækurnar orðnar tíu talsins.
Og þar sem SVEPPAGREIFINN hafðist við í nágrenni Biel þá var varla hjá því komist að heimsækja fleiri bókabúðir í borginni, á þessum þremur vikum sem fjölskyldan var stödd í landinu, og fleiri myndasögur bættust því smám saman í bókabunkann. Ný bók um dóttur Zorglúbb var til að mynda einnig versluð í Biel í ferðinni en svo var fjárfest í Lukku Láka bók númer 93 á þýsku, Meine Onkel die Daltons (2015), en SVEPPAGREIFINN hefur þó ekki kynnt sér hvort sú númeraröð sé samræmd hinni upprunalegu belgísku/frönsku bókaröð. Í Biel var svo einnig keypt Sval og Val bók númer 51 á þýsku, sem heitir In den Fängen der Viper, en það er reyndar bók númer 53 á frönsku og heitir upprunalega Dans les griffes de la vipére (2013).
Nokkrum dögum síðar lá leiðin til Lugano og þar komst SVEPPAGREIFINN í feitt. Eftir að hafa skoðað helstu bókabúðir borgarinnar án árangurs fann hann loksins (eftir töluverða leit) litla, vel falda verslun sem heitir Dadix Comics & Manga SHOP sem hafði reyndar ekki uppá það að bjóða sem væntingar voru uppi um. En hinsvegar gat eigandi búðarinnar bent SVEPPAGREIFANUM á aðra verslun þar sem örugglega væri hægt að finna eitthvað af því sem leitað var að. Þar var um að ræða smábúðina Il Bottechino, í útjaðri miðbæjarins, sem reyndar sėrhæfir sig í alls konar Ski-fi og Manga efni, bæði notuðu og nýju. En ungur ítalskmælandi eigandi verslunarinnar gat þó bent á hillur þar sem áhugasvið SVEPPAGREIFANS blasti við á ögrandi hátt í öllu sínu veldi. Þarna verslaði hann einar tíu notaðar en vel með farnar myndasögur á frönsku, þýsku og ítölsku og borgaði fyrir þær 20 svissneska franka en það gera rétt um 200 íslenskar krónur fyrir stykkið.
Næst var komið að því að heimsækja höfuðborgina Bern nokkrum dögum síðar og þar voru nú bara keyptar tvær bækur með Sval og Val. Þetta voru þýskar útgáfur af bók númer 32, Abenteuer in Australien, sem er númer 34 á frönsku og heitir þar Aventure en Australie (1985). Og hins vegar bók númer 48, Zu den Ursprüngen des Z sem heitir Aux sources du Z (2008) á frönsku og er þar númer 50.
Í Neuchâtel var einnig aðeins staldrað við og þar fann SVEPPAGREIFINN stórskemmtilega sérverslun með myndasögur en hún nefnist því fróma nafni Apostrophes bandes dessinées og hefur að geyma bæði verslun og gallerí. Reyndar var hann fremur hægverskur í kaupaðgerðum sínum að þessu sinni og verslaði aðeins eina myndasögu. Það var bók númer fjögur úr bókaflokknum um ævintýri Lukku Láka ungan, þ.e. Les aventures de Kid Lucky og bókin nefnist; Lasso périlleux.
SVEPPAGREIFINN mælir algjörlega með að þeir sem leið eigi um Neuchâtel droppi aðeins við í Apostrophes bandes dessinées.
Að lokum dvaldi svo SVEPPAGREIFINN og fjölskylda hans eina nótt í Basel og þar var ekki hjá því komist að heimsækja hina frábæru COMIX SHOP. Þar hefur SVEPPAGREIFINN reyndar verið fastagestur á undanförnum árum og ósjaldan verið duglegur við að hafa heim með sér einhverja kostagripi úr þeirri verslun. Auk þess sem eiginkona hans hefur jafnan verslað þar eina Tinna fígúru í hvert sinn og gefið sínum heittelskaða SVEPPAGREIFA. Í þetta sinn var SVEPPAGREIFINN á ferðinni fyrir hádegi á mánudagsmorgni og rak sig þá á það vandamál að verslunin opnaði ekki fyrr en klukkan 13:00 á mánudögum en fjölskyldan átti hins vegar bókað flug til Íslands klukkan 14:30. Eigandi COMIX SHOP var hins vegar að störfum í búðinni við bókhald og sá aumur á íslensku fjölskyldunni og hleypti þeim lausum í búðinni, þrátt fyrir opinberan lokunartíma. SVEPPAGREIFINN launaði eigandanum greiðann með kaupum á þremur teiknimyndasögum og fékk meira að segja nokkur myndasögublöð í kaupbæti frá Fría myndasögudegi þeirra Svisslendinga. Þar á meðal var frábært myndasögublað um Viggó í tilefni af 60 ára afmæli hans.
En í COMIX HOP í Basel fjárfesti SVEPPAGREIFINN að þessu sinni í Sval og Val bókinni Tora Torapa (1973) á þýsku en hún er númer 21 hjá þjóðverjunum en 23 í frönsku útgáfunni. Þá keypti hann bók númer 29, Die Büchse der Pandora, sem er númer 31 á frönsku og heitir La boîte noire (1983) á frummálinu. Og að lokum keypti hann enn eina bókina úr Spezial flokknum um Sval og Val en þar var um að ræða bókina SPIROU - Porträt eines Helden als junger Tor (2009). Sú bók er ansi áhugaverð og skemmtileg og stefnt er að því að rýna betur í hana hér á Hrakförum & heimskupörum.
Og svo má auðvitað alls ekki gleyma Tinna fígúrunni sem heittelskuð eiginkona SVEPPAGREIFANS færði honum. Fígúran var að þessu sinni ekki beint fígúra heldur sjálf Eldflaugin úr dúólógíunni Eldflaugastöðin/Í myrkum mánafjöllum. En fyrir hafði hún gefið honum Tinna, Tobba, Kolbein og Vandráð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!