18. ágúst 2017

19. TINNA VEGGFÓÐUR

Hinir ótrúlegustu hlutir reka á fjörur forvitinna manna og það er víst ekki hægt að undanskilja hinn ofurforvitna SVEPPAGREIFA í þeim efnum. Hann getur verið ansi duglegur við að leita uppi fáránlega hluti og að undanförnu hefur hann verið svolítið verið að grúska í alls kyns minjagripum og öðru dóti tengt Tinna. Og þar er af nógu að taka, enda saga Tinna orðin nærri 90 ára gömul. SVEPPAGREIFINN mun eflaust deila ýmsu af því, í framtíðinni, sem á fjörur hans hafa rekið í þessu grúski sínu en það er samt alltaf gott að byrja einhversstaðar.
Jú, einhvern tímann á árum áður var hægt að festa kaup á veggfóðri sem hafði að geyma þessi kunnuglegu stef úr innviðum Tinna bókanna. SVEPPAGREIFANUM (og eflaust einhverjum fleirum) hefði líklega ekki þótt amalegt að eiga herbergi betrekkað með Tinna í hólf og gólf á sínum yngri árum. Verst að maður hefði líklega ekki tímt að hafa neitt annað á veggjunum.
Því miður er þetta víst ekki lengur framleitt en helvíti væri nú gaman ef hægt væri að nálgast nokkrar rúllur af þessum gersemum. Svona tegund veggfóðurs er líklega eitthvað sem aldrei færi úr tísku.

En svo maður haldi nú aðeins áfram með eitthvað sambærilegt. Myndasögunörd nokkur á Spáni, sem sérhæfir sig í fræðunum um Tinna, var í vandræðum með bogadreginn vegg í holrými í íbúðinni sinni. Þarna var ekki hægt að koma fyrir einni einustu mublu og algjörlega vonlaust að reyna að hafa einhverjar myndir á veggnum af nokkru viti. Þá fékk hann þessa snilldarhugmynd að láta nálæga prentsmiðju búa til límfólíu eða filmu með þessum sömu myndum innan úr kápum Tinna bókanna og lét líma hana á þennan leiðinlega vegg. Niðurstaðan er líka hreint frábær. Eigandi íbúðarinnar kallar nú vegginn "hjarta heimilis síns" og hann segist aldrei þreytast á að hafa hann daglega fyrir augunum á sér.

2 ummæli:

  1. Ég átti sængurföt með Tinna myndum þegar ég var lítill. Það var gaman að sofna undir þeim.

    SvaraEyða

Út með sprokið!