27. október 2017

29. LUKKU LÁKI - Á LÉTTUM FÓTUM

SVEPPAGREIFINN hefur fram til þessa ekki verið mjög duglegur að fjalla um Lukku Láka á þessu bloggi sínu en nú stendur til að gera svolitla bragarbót á því. Bækurnar um Lukku Láka eru reyndar svolítið misjafnar að gæðum, enda teiknaðar á löngu tímabili, en heilt yfir þykja þær nokkuð skemmtilegar. SVEPPAGREIFINN er í það minnsta þeirrar skoðunar. Lukku Láki er sköpunarverk belgíska listamannsins Maurice de Bevere (Morris) og kom fyrst við sögu í myndasögutímaritinu SPIROU árið 1946 en árið 1955 kom fransk/argentínski handritshöfundurinn René Goscinny til sögunnar og saman gerðu þeir Lukku Láka bækurnar gríðarlega vinsælar næstu áratugina. Samstarfi þeirra lauk árið 1977 þegar Goscinny lést en Morris hélt áfram að teikna sögurnar, ásamt ýmsum öðrum handritshöfundum, allt þar til hann lést sjálfur árið 2001. Bækurnar eru enn að koma út (sú nýjasta árið 2016) og eru teiknaðar af ýmsum höfundum en bækur nútímans eru almennt taldar standa bókum Morris & Goscinny langt að baki í gæðum.
Fjölvaútgáfan gaf út 35 Lukku Láka bækur á íslensku, langflestar í þýðingu Þorsteins Thorarensen, á árunum 1977 til 1983 og Froskur útgáfa hóf síðan að gefa út Lukku Láka á ný árið 2016 eftir 33ja ára hlé á Íslandi. Af þessum 35 bókum sem Fjölvi gaf út voru 33 þeirra hluti af sjálfum bókaflokknum en auk þeirra komu út tvær bækur í viðbót sem ekki tilheyrðu hinni eiginlegu opinberu Lukku Láka seríu. Þetta voru bækurnar Þjóðráð Lukku Láka (1978), sem var eins konar kvikmyndabók gerð upp úr teiknimyndinni La Ballade des Dalton sem frumsýnd var árið 1978 og Á léttum fótum - Spes tilboð (1982). Um síðarnefndu bókina ætlar SVEPPAGREIFINN aðeins að fjalla um núna.
Eins og áður hefur verið vikið að er þetta ekki nein venjuleg Lukku Láka bók. Bókin er ekki í hefðbundnu Lukku Láka broti heldur er hún í mjúku kiljuformi, í stærð sem samsvarar um það bil hálfri venjulegri myndasögu eða ca A5 stærð. Og auk þess er hún einnig töluvert mikið þykkari. Bókin hefur að geyma heilar átta stuttar sögur með Lukku Láka og er 152 blaðsíður að lengd. Á léttum fótum var gefin út hjá Fjölva árið 1982 og prentuð í samvinnu við norska og sænska bókaútgáfur, líkt og margar Lukku Láka bækur sem komu út á Íslandi, en útgáfa þeirra var mjög ör á þessum árum. Til gamans má líka geta þess að fyrstu 20 Lukku Láka bækurnar, sem komu út á íslensku, voru gefnar út á aðeins þremur árum.
Þýðing og nafngift íslensku útgáfunnar, Á léttum fótum, er kannski svolítið frjálsleg eins og Þorsteinn heitinn Thorarensen gat verið svo skemmtilega gjarn á. En ef vilji er fyrir hendi er auðvelt að tengja titilinn við hest Lukku Láka en hann heitir auðvitað Léttfeti. Og svo má kannski einnig til gamans geta þess að upp á íslensku myndi upprunalegi titill bókarinnar, La Bataille du riz, líklega útleggjast sem Bardagi hrísgrjónannaÁ léttum fótum var að líkindum ekki prentuð í sama upplagi og hinar Lukku Láka bækurnar. Bókin er því orðin afar sjaldgæf og eftirsótt meðal safnara en einnig mætti nefna líklega ástæðu fyrir því hversu fágæt hún er að þetta litla brot hennar var ekki í hinu hefðbundna harðspjaldaformi. Þannig hafi hún hugsanlega slitnað hraðar en aðrar myndasögur og það gæti því verið ein af ástæðunum fyrir því að ekki séu lengur mjög mörg eintök í umferð. Þetta litla brot bókarinnar gerði það að verkum að á hverri blaðsíðu rúmuðust ekki nema að meðaltali 5 - 6 myndir (oftast tvær jafnstórar myndir í hverri línu) en í venjulegu myndasöguformi eru oftast þetta 10 - 12 myndir á hverri síðu. Heildarmynd hverrar blaðsíðu virkar því kannski svolítið einföld vegna þess að jafnaði eru allar myndirnar á síðunni jafnstórar.
Eins og áður segir samanstendur bókin af átta styttri sögum. Þær eru eftirfarandi:

  • Gula hættan (La Bataille du riz), 16 bls. - 1969
  • Áskorandinn (Défi à Lucky Luke), 9 bls. - 1968
  • Glymskratti Villta Vestursins (Arpèges dans la vallée), 16 bls. - 1968
  • Kynnisferð um Kaktusmýri (Promenade dans la ville), 9 bls. - 1969
  • Hefnd Daltón bræðra (La Ballade des Dalton), 55 bls. - 1978
  • Orð á borði (La bonne parole), 8 bls. - 1979
  • Lipri og lúnkni Kínverjinn (Li-Chi´s story), 16 bls. - 1980
  • Skerfaraskólinn (L'École des Shérifs), 15 bls. - 1978

Fjórar fyrstu sögurnar birtust í aukahefti franska myndasögutímaritsins Pilote á árunum 1968-69 en heftið nefndist Super Pocket Pilote. Reyndar komu ekki út nema 9 tölublöð af Super Pocket Pilote áður en þetta aukahefti var lagt niður árið 1970. En í byrjun apríl árið 1972 var þessum sömu fjórum sögum safnað saman, af franska olíufélaginu Total, í bók sem nefndist eftir sögunni La Bataille du riz sem er einmitt fyrsta sagan í íslensku útgáfunni. Total dreifði bókinni frítt til viðskiptavina bensínstöðva fyrirtækisins og hana mátti alls ekki selja. Það má reikna með að þessi bók hafi fallið í kramið hjá börnum viðskiptavina Total olíufélagsins og hafi nýst þessum yngri farþegum vel sem gott eldsneyti á lengri ferðalögum sumarið 1972. Sögurnar fjórar voru líka mátulega stuttar og hentuðu ágætlega til að halda börnunum við efnið en þær voru þó ekki birtar í sömu röð og fyrstu fjórar sögurnar í íslensku útgáfunni. La Bataille du riz bókin var aldrei til sölu í bókaverslunum í Belgíu og Frakklandi og hefur aldrei verið gefin út aftur.
Í Á léttum fótum heitir fimmta sagan Hefnd Daltón bræðra eða La Ballade des Dalton á frummálinu. Þetta er í raun endurgerð sögunnar Þjóðráð Lukku Láka sem gerð var teiknimynd um og minnst var hér á snemma í greininni. Þeir Morris og Goscinny komu ekki beint að gerð kvikmyndarinnar og myndin er ekki byggð á neinni bók úr Lukku Láka seríunni. Þeir eru því tæknilega ekki höfundar bókarinnar Þjóðráð Lukku Láka heldur eru myndirnar í bókinni aðeins rammar úr kvikmyndinni. Hefnd Daltón bræðra var hins vegar teiknuð upp í myndasöguform seinna eftir kvikmyndinni. Sagan birtist þannig fyrst í myndasögublöðunum Pif Gadget og SPIROU árið 1978 og kom síðan út í bókarformi, sem bókin La Ballade des Dalton et autres histoires, árið 1986 ásamt þremur öðrum styttri sögum. Sú bók er númer 55 í opinberu bókaröðinni.
Sjötta sagan í bókinni nefnist Orð á borði en upprunalega nafn hennar er La bonne parole og hún birtist fyrst í myndasögutímaritinu SPIROU árið 1979. Sjöunda sagan heitir Lipri og lúnkni Kínverjinn á íslensku en á frönsku heitir hún Li-Chi´s story. Hún hefur þá sérstöðu að Lukku Láki sjálfur birtist aðeins á rétt rúmlega einni blaðsíðu, af 16, í byrjun sögunnar og síðan ekki söguna meir. Sú saga birtist líka fyrst í SPIROU en þó ekki fyrr en á árinu 1980. Belgíski listamaðurinn Bob de Groot, sem líklega er þekktastur fyrir teiknmyndahetjuna Leonardo, er handritshöfundur þessara beggja sagna (Orð á borði og Lipri og lúnkni Kínverjinn) en það kemur þó hvergi fram í bókinni. Morris teiknaði þessar tvær sögur en Goscinny kemur þar ekkert við sögu enda lést hann í nóvember 1977. Það er því rangt sem kemur fram á bókarkápu Á léttum fótum að bókin sé aðeins eftir þá Morris & Goscinny. Báðar birtust þessar sögur síðar í bókinni La Corde du pendu et autres histoires sem kom út árið 1982 og er númer 49 í opinberu seríunni um Lukku Láka. Í þeirri bók eru einnig fimm aðrar styttri sögur, frá árunum 1977-80, sem ekki hafa birst á íslensku og aðeins sú elsta er eftir Goscinny.
Síðasta sagan í bókinni Á léttum fótum heitir Skerfaraskólinn eða L'École des Shérifs en sú saga birtist, líkt og Hefnd Daltóna (La Ballade des Dalton) í myndasögublaðinu Pif Gadget árið 1978. Og Skerfaraskólinn var líka ein af þeim sögum sem komu fyrir í 55. Lukku Láka bókinni La Ballade des Dalton et autres histoires frá árinu 1986 sem minnst var hér á áður.
SVEPPAGREIFINN eignaðist eintak af bókinni Á léttum fótum líklega um það leyti sem hún kom út á sínum tíma. Sú bók slitnaði hins vegar í tímans rás og var orðin ansi lúin og illa farin þegar hann rakst á nokkur eintök af henni á Bókamarkaði bókaútgefenda fyrir um 20 árum. Þá var hann að reyna að fylla upp í þær eyður sem vantaði í seríuna um Lukku Láka og rak augun í bunka af Á léttum fótum og var svo hygginn að grípa með eintak af þessari bók. Hún er enn til í safni SVEPPAGREIFANS og í topp standi.

20. október 2017

28. ÝMIS LISTAVERK Í BRÜSSEL OG AMSTERDAM

Um síðastliðna páska átti SVEPPAGREIFINN leið um Amsterdam og heimsótti til að mynda hina frábæru myndasögubúð Lambiek við Koningsstraat 27 sem er ekki langt frá Nieuwmarkt markaðstorginu. Um það fjallaði hann meðal annars í þessari færslu hér. En annars var Lambiek verslunin opnuð árið 1968 og var fyrsta sérverslunin með myndasögur sem opnaði í Evrópu en þess utan er hún líklega elsta starfandi myndasögubúðin í öllum heiminum. Verslunin er þekkt um allan heim fyrir metnað og frábært úrval en alveg frá upphafi lagði stofnandi hennar, Kees Kousemaker, sig fram um að vera í góðu sambandi við sem flesta listamennina. Samhliða myndasöguversluninni er þar einnig rekið gallerí sem hefur að geyma fágæta dýrgripi frá mörgum af þekktustu listamönnum teiknimyndasagnanna í Evrópu. SVEPPAGREIFINN hvetur allt áhugafólk um teiknimyndasögur sem leið eiga um miðborg Amsterdam að kíkja þarna við og skoða úrvalið.
Það er gaman að minnast aðeins á svolítinn dýrgrip sem galleríið í Lambiek búðinni hefur að geyma. Árið 1971 unnu nefnilega tveir af þekktustu listamönnum Belgíu, þeir André Franquin og Pierre Culliford (Peyo), sameiginlega að forsíðumynd á litlum auglýsingabæklingi fyrir verslunina og eigandann Kees Kousemaker. Á þessari mynd má sjá Viggó viðutan, sem Franquin teiknaði auðvitað, með hóp af strumpum hangandi utan á sér en þá teiknaði Peyo að sjálfsögðu. Svona leit bæklingurinn út þegar þessir tveir snillingar höfðu lokið við verkið.
Upprunalega myndin hefur alltaf verið vandlega varðveitt í safni búðarinnar þau 46 ár sem liðin eru síðan listamennirnir gerðu hana en nú er svo komið að þessi glæsilegi safngripur liggur hreinlega undir skemmdum ef ekkert verður að gert.
Þeir félagar, Franquin og Peyo, teiknuðu myndina hvor með sínum pennanum og nú er svo komið að blekið í þeim penna sem Peyo notaði hefur dofnað svo með árunum að með tímanum mun það alveg hverfa. Svo mikið hafa línurnar dofnað að þær eru orðnar ljósbrúnar. Það er því ljóst að eftir önnur 46 ár munu litlu bláu strumparnir alveg verða horfnir.
Þeir félagarnir Franquin og Peyo komu augljóslega víða við. Þeir höfðu þekkst lengi og unnið saman að mörgum verkefnum og þá sérstaklega hjá tímaritinu SPIROU.

En það er fleira...

Í lok ársins 2013 gerðu belgískir iðnaðarmenn einstaklega merkilega uppgötvun er þeir unnu að endurbætur við húsnæði Verkalýðsfélags opinberra starfsmanna (VSOA) í miðborg Brüssel. Á um tíu fermetra stórum vegg uppi á þriðju hæð hússins, undir fimm lögum af veggfóðri, fundu þeir frumteikningar eða skissur af nokkrum af helstu hetjum belgísku teiknimyndasagnanna. Teikningarnar skemmdust reyndar eitthvað af vinnu iðnaðarmannanna enda var upphafleg ætlun þeirra að skafa allt betrekkið af veggnum en sem betur fer uppgötvuðust myndirnar áður en stórtjón varð af. Myndirnar höfðu sem sagt verið rissaðar á innsta lag veggfóðursins en hin fimm lögin náðu iðnaðarmennirnir að skafa gætilega burt, eftir um tveggja daga vinnu, þegar ljóst var hvað undir leyndist.
Þarna höfðu einmitt þeir félagar Franquin og Peyo átt svolítinn hlut að máli, Franquin með skissur af Gorminum og Viggó viðutan en Peyo með Hagbarð félaga Hinriks úr samnefndum myndasögum.
Þrír aðrir listamenn höfðu einnig komið að þessu veggjakroti en það voru þeir Jean Roba, Michel Tacq og Victor Hubinon. Þeir þrír eru reyndar ekki jafn þekktir hér á landi, þar sem þeirra sögur hafa ekki verið gefnar út hér, en Jean Roba er kunnastur fyrir grallaraspóana og vinina Boule og Bill. Allir þessir listamenn voru því í hópi stærstu nafna belgísk/franska myndasögu-elítunnar. Hægra megin við myndina af Gormi stendur nafn Franquins en þar við hliðina ártalið '58. Það liggur því augljóslega beinast við að áætla að verkið hafi verið unnið á því herrans ári 1958.
Og á öðrum stað á veggnum hefur verið skrifuð beiðni á frönsku sem enn sést, "Prière de ne plus dessiner sur ce mur svp" eða "Vinsamlegast teiknið ekki meira á vegginn". Óvíst er auðvitað hversu lengi þessi mynd hefur fengið að standa óáreitt á veggnum en á einhverjum tímapunkti hefur einhverjum þótt ástæða til að veggfóðra yfir listaverkið. Og með tímanum hafa bæst við fleiri lög af veggfóðri enda enginn að gera sér neina grein fyrir hverns konar menningaverðmæti hafi mátt finna þarna undir.
Þótt veggurinn hafi fundist í desember árið 2013 var fundur hans þó ekki gerður opinber fyrr en í september árið 2015. Teiknimyndasögusafn Belgíu hafði fengið herbergið í sína umsjón en hafði ekki fjármuni til að geta unnið strax að þeim nauðsynlegu aðgerðum sem fundurinn krafðist áður en hann yrði gerður opinber. Forstöðumaður safnsins, Willem de Graeve, hefur látið hafa eftir sér að ólíklegt sé að teikningarnar á veggnum séu falsaðar. "Ég held að enginn hafi falsað teikningarnar á veggnum á þeim tíma. Stíllinn er mjög skýr. Það er ekki auðvelt að falsa myndir eftir Franquin eða Peyo. Þessir teiknarar eru mjög frægir í dag en voru nánast óþekktir þegar þessar myndir voru gerðar", segir de Graeve.
Myndasögusafnið hefur núna látið setja gler yfir vegginn til að verja hann fyrir skemmdum og eigandi hússins, VSOA í Brüssel, stefnir á að opna rýmið fyrir almenningi. SVEPPAGREIFANUM er reyndar ekki kunnugt um hvort af því hefur orðið enn en það hlýtur að teljast líklegt. Þessi fundur telst einstakur í menningar- og þjóðararfi Belga og nauðsynlegt að komandi kynslóðir fái að njóta hans sem best.

13. október 2017

27. VEGGJAKROT MEÐ TINNA Í SABADELL

Katalónía er mikið í umræðunni þessa dagana og því er alveg tilvalið að tengja færslu dagsins við þetta sögufræga sjálfstjórnarhérað sem óskað hefur eftir aðskilnaði frá Spáni. En árið 2015 var haldið upp á það að 50 ár voru liðin síðan útgáfa Tinna bókanna hófst á katalónsku en fyrstu Tinna bækurnar sem gefnar voru út í Katalóníu voru Vandræði Vaílu Veinólínó og hin frábæra Tinni í Tíbet. Ýmislegt var brallað til hátíðabrigða í tilefni afmælisins og eitt af því sem vakti mesta athygli var graffiti listaverk af Tinna sem listamaðurinn Werens skellti upp á vegg í miðbæ borgarinnar Sabadell í Katalóníu.
Á þessu fallega vegglistaverki má sjá Tinna brunandi um á reiðhjóli og Tobbi fylgir honum fast á eftir eins og hans er von og vísa. Rétt á eftir þeim þjóta Skaftarnir á grænleitum bíl og með ítölsku óperusöngkonuna Vaílu Veinólínó í aftursætinu.

En í tilefni afmælisins voru auk þess ýmsir fleiri viðburðir í boði sem í rauninni stóðu meira og minna allan seinni hluta ársins 2015. Ráðstefnur, sýningar og fyrirlestrar voru meðal þess sem boðið var upp á og augljóst er að virðingin fyrir verkum Hergés fer víða heldur en bara um Belgíu eða Frakkland.

Það er vonandi að íslenskir aðdáendur Tinna bókanna geti notið sambærilegra hátíðarhalda þegar 50 ár verða liðin frá útgáfu fyrstu Tinna bókanna á íslensku. Eða í það minnsta verði alla vega eitthvað gert til að minnast þeirra tímamóta árið 2021.

6. október 2017

26. SPIROU - DAGBÓK HREKKLEYSINGJA

SVEPPAGREIFINN varð sér úti um ansi áhugaverða myndasögu síðastliðið sumar en þar er um að ræða bók úr myndasöguflokknum Sérstök ævintýri Svals ... eða eins og hann heitir á frönsku, Série Le Spirou de… SVEPPAGREIFINN hefur áður minnst á þessa seríu en þarna erum við að tala um sérstakan hliðarbókaflokk þar sem aðrir aðilar en hinir eiginlegu Sval og Val teiknarar fá að spreyta sig. Þó eru reyndar undantekningar á því vegna þess að núverandi höfundar, þeir Fabien Vehlmann og Yoann Chivard, teiknuðu einmitt fyrstu söguna sem kom út í Sérstökum ævintýrum Svals … árið 2006. Þar tókst þeim svo vel upp að þeir voru fengnir til að gerast höfundar að aðal bókunum en þeir hafa nú samið síðustu fimm sögurnar í hinum hefðbundna Sval og Val bókaflokki. Í Sérstökum ævintýrum Svals ... hafa höfundarnir hins vegar fengið miklu meira frelsi. Listamennirnir geta þar leikið sér að vild, bæði með tíma og sögu, þar sem sögurnar hafa engin áhrif á heildarmynd hinna bókanna og það hefur til dæmis verið mjög vinsælt hjá höfundum þeirra að tengja Sérstök ævintýri Svals ... við Síðari heimsstyrjöldina. Þessar sögur hafa enn ekki verið gefnar út á íslensku og tilheyra, eins og fyrr segir, ekki hinum venjulegu bókum um Sval og Val en sýna þessar vinsælu bókmenntir á svolítið nýjan, framandi og skemmtilegan hátt.

SVEPPAGREIFINN hefur reynt að nálgast bækur úr þessum flokki á ferðum sínum erlendis og á orðið fjórar sögur um þessi Sérstöku ævintýri Svals ... Þrjár af bókunum hans eru á þýsku og þar nefnist þessi bókaflokkur einfaldlega Spezial en ein þeirra er frönsk og kemur úr upprunalega Série Le Spirou de ... bókaflokknum frá Dupuis. Og stefnan er auðvitað líka sú að nálgast sem mest af því sem til er af þessum sögum og um leið að eignast það sem kemur jafnóðum út.
En bók sú sem SVEPPAGREIFANN langaði aðeins að fjalla um að þessu sinni er sagan SPIROU - Le Journal d'un ingénu eins og hún heitir á frummálinu. Eða SVALUR - Dagbók hrekkleysingja eins og Wikipedia hefur þýtt hana á íslensku en bókin hefur unnið til fjölda verðlauna síðan hún kom út árið 2007. Undirritaður varð sér úti um þýska útgáfu af bókinni (sem kemur þá úr Spezial flokknum þar) og þar hefur hún verið þýdd, SPIROU - Porträt eines Helden als junger Tor.
Sagan fjallar um Sval sem er munaðarlaus og bláfátækur vikapiltur á Moustic hótelinu í Brüssel sumarið 1939. Hann er saklaus og fáfróður um heimsmálin, þar sem Síðari heimsstyrjöldin er rétt handan við hornið. Svalur býr einn og við frekar rýran og einfaldan kost í skítugri herbergiskitru með Pésa íkornanum sínum. Á hótelinu, þar sem hann starfar, kynnist hann ungri þjónustustúlku sem heitir Kassandra Stahl og með þeim þróast góð vinátta. Hann verður ástfanginn af henni en seinna kemur reyndar í ljós að hún er ekki öll þar sem hún er séð. En á Hótel Moustic kynnist Svalur einnig slúðurblaðamanninum og spjátrunginum Val sem reynir að nýta sér hrekkleysi Svals til að afla sér upplýsinga um fræga fólkið sem gistir hótelið. Og í stuttu máli kemur Valur af stað Seinni heimsstyrjöldinni með snuðri sínu!

Höfundur bókarinnar, myndlistamaðurinn Émile Bravo, er ansi áhugaverður gaur. Hér má finna bloggsíðu sem hann heldur uppi. Hann er fæddur í Frakklandi árið 1964 en á reyndar spænska foreldra og ólst upp við hefðbundið belgískt/franskt myndasöguuppeldi. Hann teiknaði mikið sem barn og hans helstu fyrirmyndir í æsku voru þessir fransk/belgísku listamenn; Goscinny, Morris, Peyo og Hergé. Og þar af leiðandi er hann mikill aðdáandi Tinna og það kemur einmitt vel fram í þessari bók, Le Journal d'un ingénu. Söguna teiknar hann í þeim anda sem ríkti í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar og er því umvafin þessum hæfilega drungalega blæ eða andrúmslofti. Þótt SVEPPAGREIFINN hafi hvorki hæfileika né kunnáttu til að greina eða lesa í teiknistíl gömlu meistaranna, þá er eitthvað alveg svakalega fallegt, klassískt yfirbragð svífandi yfir þessari bók. Og þá virðist tónninn í litavalinu algjörlega vera sóttur til Rob-Vel, Jijé og fyrstu sögum Franquins. SVEPPAGREIFANUM finnst þessi bók vera algjört listaverk og hann vildi hreinlega óska þess að hún að hafi verið teiknuð á fjórða áratug síðustu aldar.

Le Journal d'un ingénu segir eiginlega frá uppruna Svals eða frá árunum áður en ævintýri þeirra Svals og Vals hófust. Í bókinni kemur fram fullt af svörum við spurningum sem margir hafa spurt sig um - eða jafnvel spurningum sem enginn hefur velt fyrir sér! Af hverju er Pési svona klár? Hvernig hittust eða kynntust Svalur og Valur fyrst? Af hverju klæddist Svalur alltaf rauða hótelgallanum í Sval og Val bókunum? Hvers vegna hefur Svalur alltaf verið svona áhugalaus og rólegur gagnvart hinu kyninu? Auðvitað er þetta ekki alvöru Sval og Val saga og svörin við spurningunum því ekki rétt en pælingarnar eru samt sem áður áhugaverðar. Aftast í bókinni er svo aukasaga úr bernsku Svals þar sem fram kemur hvernig það æxlaðist að honum var komið fyrir í þessari vist á hótelinu. Le Journal d'un ingénu er því ekki einungis áhugaverð og skemmtileg, heldur leikur Émile Bravo sér líka með fullt af bæði tilvísunum og tilvitnunum í Tinna bækurnar ef vel er að gáð. Og reyndar þarf ekki einu sinni að gá vel! Í flestum hinna bókanna úr þessari seríu af Sérstökum ævintýrum Svals ..., eftir aðra höfunda seríunnar, má einnig finna alveg aragrúa af tilvísunum úr Tinna bókunum. Í þeim bókum úr þessum flokki, sem SVEPPAGREIFINN hefur eignast, er fullt af reyndar misjafnlega áberandi dæmum um það. En skoðum nokkur atriði úr þessari bók, Le Journal d'un ingénu. Á blaðsíðu 20 er þjónustustúlkan Kassandra á hótel Moustic að átta sig á því hversu lítt fróður Svalur er um það sem er að gerast í heimsmálunum sumarið 1939 og hann viðurkennir að það eina sem hann lesi sé Le Petit Vingtième. En það er auðvitað, eins og allir vita, myndasögublaðið þar sem Tinni kom fyrst fram á sjónarsviðið.
Á blaðsíðu 26 undirbýr Svalur sig við að fara á stefnumót með Kassöndru og er að klæða sig upp í tilefni þess. Ekki er beint um auðugan garð að gresja í fataskápnum hjá Sval en hann klæðir sig þó í gula skyrtu, sem Valur færði honum, og í brúnar pokabuxur sem hann fékk ódýrt. Og þar með er Svalur orðinn klæddur eins og Tinni sjálfur sést í nokkrum bókanna um hann. Eitt af því fáa sem sést í fátæklegum hillum hans eru bækurnar Tinni í Sovétríkjunum og Sjö kraftmiklar kristallskúlur.
Og á leiðinni á stefnumótið, einni blaðsíðu seinna, kemur Svalur þannig klæddur við hjá ungum vinum sínum sem eru með öllu óvanir að sjá hann klæddan án rauða hótelgalla síns. Þeir reka upp stór augu þegar Svalur birtist og gera stólpagrín að honum, enda klæddur eins og Tinni.
Svalur er að byrja að opna augun fyrir stöðu heimsmála og ógnum í aðdraganda Seinni heimstyrjaldarinnar í kjölfar þess að vinkona hans, þjónustustúlkan Kassandra, upplýsir hann um margvíslegan gang lífsins og heimsmálanna. Hann kemur við á ótrúlega kunnuglegum flóamarkaði, á blaðsíðu 35, þar sem hann finnur heimsatlas sem hann borgar reyndar fyrir með buxunum sínum. Flóamarkaðurinn í Brüssel er algjörlega klipptur úr Leyndardómi Einhyrningsins og þarna sést meira að segja skipið sem Tinni, Sigmundur Sakkarín og náungi sem nefnist Brandur börðust við að bjóða í. Svalur hefur því verið töluvert á undan Tinna á ferðinni vegna þess að Leyndardómur Einhyrningsins var reyndar ekki teiknuð fyrr en á árunum 1942-43. Líklega er þessi flóamarkaður því eins og Kolaportið þar sem sama draslið er til sölu árum saman.
Svolítið seinna í sögunni kemur Valur á hótelið, til fréttaöflunar, dulbúinn sem gömul kona og yfirgefur það eftir stutta stund akandi í leigubíl. Svalur sér eitthvað grunsamlegt en um leið kunnuglegt við þessa gömlu konu og á blaðsíðu 43 eltir hann Val með því að taka sér far með leigubílnum á varadekki hans. Og sjálfur vitnar hann í Tinna hangandi utan á bílnum.
Ansi kunnuglegt atvik, enda beint úr Bláa lótusnum. Meira að segja bíltegundin er sú sama.
Það væri hægt að benda á fullt af fleirum dæmum um Tinna tengingar í bókinni en SVEPPAGREIFINN ætlar að láta þetta duga að sinni. Honum finnst einnig nauðsynlegt að minna á að þessi bók er ekki Sval og Val bók, heldur hliðarverkefni ótengd upprunalegu sögunum. Og í raun fannst SVEPPAGREIFANUM Le Journal d'un ingénu á köflum eiginlega líkari Tinna sögu heldur en Sval og Val bók. Líklega er það bara einhvern veginn andinn í sögunni. En heilt á litið er Le Journal d'un ingénu algjörlega frábær myndasaga og vonandi telst grundvöllur fyrir því að gefa hana út, hjá Froski útgáfu í íslenskri þýðingu, í komandi framtíð. SVEPPAGREIFINN hvetur að minnsta kosti alla sanna aðdáendur Svals og Vals til að verða sér úti um eintak af bókinni.