8. desember 2017

35. FRÆGT MÁLVERK Í TINNABÓK

Tinna bókin Leyndardómur Einhyrningsins, frá árinu 1943, markar heilmikil tímamót í þessum vinsæla bókaflokki því það er nefnilega í þessari bók sem óðalssetrið Myllusetur kemur fyrst við sögu. Þar höfðu hinir alræmdu forngripasalar, bófarnir Starri og Þröstur, aðsetur sitt og þjónninn Jósep birtist í fyrsta sinn í þessari bók. Í sögunni starfar hann fyrir þá Starra og Þröst og er alls ómeðvitaður um þá glæpastarfsemi sem þeir stunda. Um miðbik bókarinnar er Tinna rænt af öðrum undirtyllum þeirra bræðra og honum haldið föngnum í kjallara Mylluseturs í nokkrar blaðsíður en með hjálp níðþungs viðardrumbs tekst honum að flýja úr prísundinni. Sagan mallar áfram með viðeigandi æsingi á köflum og í seinni hluta hennar skiptir hún ekki bara um gír, heldur líka umhverfi. Tinni og Kolbeinn fara í fjársjóðsleit í framhaldsbókinni Fjársjóði Rögnvaldar rauða og í þeirri bók verða einnig merkileg tímamót. Jú, Vandráður prófessor er kynntur til sögunnar.

Undir lok bókarinnar um Fjársjóð Rögnvaldar rauða hafa þeir Kolbeinn kafteinn og prófessor Vandráður fest kaup á Myllusetri á nauðungaruppboði. Tinni og Kolbeinn gera sér ferð niður í kjallarann, þar sem Tinna hafði verið haldið föngnum í fyrri bókinni, og þar niðri má sjá nokkuð merkilegan hlut. Þarna fara þeir félagar hirðuleysislegum höndum um málverk eitt sem er til í raun og veru.

Hergé hefur hér laumað inn í söguna málverkinu Portrait of Madame Mole Raymond frá árinu 1786 sem er eftir franska listmálarann Elisabeth Vigée Le Brun en hún var einnig þekkt sem Madame Le Brun. Portrait of Madame Mole Raymond er kannski ekki eitt af þekktustu málverkum listasögunnar en er þó í dag á Louvre safninu fræga í París.
Hergé var reyndar nokkuð duglegur við að setja inn málverk í Tinna sögurnar, bæði myndir sem skapaði sjálfur og eins verk sem þekkt voru fyrir. Portrait of Madame Mole Raymond var einmitt ein af þeim. Hann fékkst sjálfur við að mála á eldri árum og nokkur dæmi eða hugmyndir um abstrakt list hans má til dæmis finna í Tinna og Pikkarónunum. Í bókinni Tintin et l'Alph-Art sem Hergé vann að er hann lést stóð einmitt til að söguþráðurinn tengdist þessu áhugamáli hans.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!