18. maí 2018

59. SAMMI OG KOBBI

SVEPPAGREIFINN hefur að undanförnu verið að draga aðeins fram gamla félaga úr myndasöguhillunum sínum og er nú dottinn í Samma bækurnar en það eru sögur sem SVEPPAGREIFINN hefur alltaf haft svolítið gaman að. Það fer yfirleitt ekki mikið fyrir þessum bókum og þær vilja oft gleymast svolítið þegar teiknimyndasögur, sem komið hafa út á íslensku, eru taldar upp. Þarna er hins vegar ágætis efni á ferðinni og líklega þær myndasögur, ásamt Fláráði stórvezír og Ástríki, sem komast hvað næst bókunum um Viggó viðutan í húmor. Þarna er farsakenndur léttleiki ávallt í fyrirrúmi og SVEPPAGREIFANUM er jafnvel kunnugt um aðila sem hreinlega dýrka þessar bækur. En félagarnir Sammi og Kobbi komu fyrst fyrir sjónir Íslendinga fyrir jólin árið 1981 þegar tvær bækur, Harðjaxlar í hættuför og Svall í landhelgi komu út, í þýðingu Jóns Gunnarssonar, hjá bókaútgáfunni Iðunni. Ári seinna kom svo út þriðja bókin, Frost á Fróni og sú fjórða, Aldraðir æringjar kom út fyrir jólin 1983.
Einhverra hluta vegna varð nú svolítið hlé á útgáfu myndasagnanna um þá félaga og næsta bók kom ekki út fyrr en um mitt sumar árið 1986. Sú bók nefndist Í bófahasar og eftir það fóru sögurnar að koma út nokkuð reglulega. Alls voru því gefnar út ellefu bækur á íslensku með Samma á árunum 1981-91 en þær eru eftirfarandi:
  1. Harðjaxlar í hættuför - 1981 (12. L'Élixir de jeunesse - 1979)
  2. Svall í landhelgi - 1981 (2. Rhum row - 1973)
  3. Frost á Fróni - 1982 (13. Le Grand Frisson - 1980)
  4. Aldraðir æringjar - 1983 (1. Bons vieux pour les gorilles - 1973)
  5. Í bófahasar - 1986 (17. Les Bébés flingueurs - 1983)
  6. Allt í pati í Páfagarði - 1986 (18. Panique au Vatican - 1984)
  7. Fólskubrögð í fyrirrúmi - 1987 (19. En piste, les Gorilles ! - 1985)
  8. Mamma mætt í slaginn - 1988 (20. Ma Attaway - 1986)
  9. Fröken Krútt fer á kreik - 1989 (21. Miss Kay - 1986)
  10. Heimsókn að handan - 1991 (22. L’Homme qui venait de l’au-delà - 1987)
  11. Prímadonnan - 1991 (23. La Diva - 1987)
Eins og svo oft með útgáfu teiknimyndasagna á Íslandi kom bækurnar ekki út í sömu röð og á frummálinu. Þannig gæti hugsanlega verið eitthvað ósamræmi tímalega séð á milli bókanna í íslensku útgáfunni en þrátt fyrir að þær séu framhaldssögur eru þær þó þess eðlis að enn hefur það ekki haft áhrif. Fyrstu tvær sögurnar í upprunalegu útgáfuröðinni hafa til dæmis báðar komið út á íslensku en voru þó bækur númer 4 og 2 hjá okkur. Þeir Jón Gunnarsson og Bjarni Fr. Karlsson sáu, á sínum tíma, um að snara þessum myndasögum yfir á íslensku en það einkennilega við þessar ellefu bækur er að stærð þeirra eru í fjórum mismunandi brotum. Algjör óþarfi og í raun virkilega hvimleitt fyrir smámunasama myndasögunörda sem vilja láta bækurnar líta vel út í hillunum.
Bækurnar um Samma eru nú alls orðnar 40 talsins en sú síðasta kom út árið 2009 og verða að öllum líkindum ekki fleiri. Eins og hjá svo mörgum teiknimyndaseríum hófu fyrstu sögurnar göngu sína í belgíska teiknimyndatímaritinu SPIROU og náðu þar töluverðum vinsældum. Sammi birtist þar fyrst í páskablaði ársins 1970, sem var tölublað númer 1667 hjá SPIROU, og kom út þann 26. mars það ár. Fyrsta sagan þar nefndist La Samba des gorilles en eitthvað af elstu sögunum um Samma, sem birtust í SPIROU tímaritinu, munu aldrei hafa komið út í bókaformi. Í byrjun voru sögurnar fyrst og fremst hugsaðar sem tilraunarefni í SPIROU og heldur var Sammi nú ungur og óharðnaður á þeim tíma.
Aðalsöguhetjan heitir Sammi eða Sammy Day á frummálinu en Kobbi nefnist Jack Attaway. Í íslensku þýðingunum hefur fullt nafn Samma (Samúels?) aldrei komið fram en Kobbi heitir hins vegar Jakob Snardal sem er hreint alveg öndvegis nafn. Sá síðarnefndi er stjórnandi lítillar lífvarða- eða einkaspæjaraþjónustu, J. S. Górillur, sem þeir báðir þó virðast reka og Sammi er því í rauninni aðeins aukapersóna þó bókaserían sé skrifuð utan um hann. Kobbi virðist alltaf vera meira í aðalhlutverkinu en hann er heldur skapstór og hvatvís og er oft ansi fljótur að stökkva til ef einhver von er um gróða. Sammi er hins vegar heldur rólegri í tíðinni og eilítið skynsamari en viðvörunarbjöllur hans klingja þó sjaldan nógu hátt til að koma í veg fyrir fljótfærni Kobba. Heldur eru þeir félagar blankir löngum stundum enda er verkefnastaða þjónustunnar ákaflega bágborin á köflum. Serían gengur því mest út á það að Sammi og Kobbi neyðast til að taka að sér nánast hvaða ómerkilega vitleysis verkefni sem er fyrir nokkur hundruð dollara, lenda í vandræðum með að klára þau og fá síðan ekki borgað fyrir.
Á einhvers konar bakvöktum hjá lífvarðaþjónustu þessari starfa einnig nokkrir félagar þeirra sem hægt er að hóa í á ögurstundum. Undantekningarlaust halda bakvaktafélagarnir til á sömu billjarðstofunni þegar aðstoðar þeirra er þörf. 
Bækurnar um Samma og félaga hafa þá sérstöðu að gerast á 3. og 4. áratug síðustu aldar í Chicago í Bandaríkjunum en reyndar teygja verkefni þeirra félaga sig einnig til annarra landa og jafnvel alla leið til Evrópu. Þetta ameríska sögusvið er frekar óvenjulegt fyrir myndasögur af belgísk/frönskum uppruna en þó má minna á að Lukku Láka bækurnar gerast að sjálfsögðu einnig fyrir vestan haf. Verkefni þeirra Samma og Kobba, sem einkaspæjarar hjá lífvarðaþjónustunni, eru af ýmsum toga en oftast tengjast þau þó heimahögum aðalpersónanna í Chicago. Stórbófinn Al Capone og lögregluforinginn Elliot Ness koma við sögu í bókaflokknum en draugar og afturgöngur eru einnig hluti af þeim öflum sem Sammi og félagar þurfa að berjast við. Þá koma einhverjir bófanna fyrir aftur og aftur og það sama má segja um útsetjara annarra ríkja sem berjast við þá félaga í verkefnum er varða þjóðaröryggi.
Sögurnar eru flestar eftir þá félaga Cauvin og Berck eða Raoul Cauvin og Arthur Berckmans eins og þeir heita nú fullum nöfnum. Handritshöfundinn hinn belgíska Cauvin þekkja eflaust margir en hann samdi meðal annars þrjá sögur úr bókaflokknum um Sval og Val en þær bækur hafa þó ekki enn verið gefnar út hér á landi. Þær myndasögur vann hann að í samstarfi við teiknarann Nicolas Broca en flestir þekkja þá auðvitað sem tvíeykið Nic og Cauvin. Þessar þrjár Sval og Val bækur þykja reyndar ekki vel heppnaðar. En þekktastur er Cauvin líklega fyrir handritsgerð að mjög vinsælum teiknimyndasögumLes Tuniques Bleues, sem hafa reyndar ekki verið gefnar út hér á landi en margir kannast vel við. Cauvin samdi handritin að öllum sögunum um Samma en listamaðurinn Arthur Berckmans teiknaði fyrstu 32 sögurnar í seríunni. Árið 1994 lét hann þó af störfum og Jean-Paul van den Broeck (þekktur sem Jean-Paul) tók við og teiknaði síðustu 8 sögurnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Út með sprokið!